Um Neytandann

 • Hvað er Neytandinn?

  Neytandinn er hugbúnaður til að safna og miðla upplýsingum um verðlag á dagvöru á Íslandi. Markmiðið með þróun kerfisins er að gefa notendum betri yfirsýn yfir útgjöld heimilisins, gera þá þannig meðvitaðri um verðlag og hjálpa þeim þannig að taka upplýstar ákvarðanir um hvað og hvar þeir versla.

 • Hver á Neytandann?

  Neytandinn er rekinn af fyrirtækinu Strimillinn ehf.

 • Hvernig safnið þið gögnum?

  Við söfnum núna gögnum af strimlum frá neytendum. Strimlana myndgreinum við til að lesa af þeim nafn verslunar, tímasetningu og vöruverð. Við erum þó einnig að skoða fleiri leiðir til að nálgast verðlagsupplýsingar, t.d. rafrænt beint frá verslunum.

 • Þarf ég að greiða fyrir þjónustuna?

  Notendur greiða ekki fyrir aðgang að eigin upplýsingum né grunnverðlagsupplýsingum.

Innsending á strimlum

 • Hvernig sendi ég inn strimla?

  Þú getur bæði sótt app fyrir iPhone og fyrir Android.

 • Hvernig er best fyrir mig að taka myndir af strimlunum?

  Best er að taka mynd eins nálægt og mögulegt er. Notaðu góða lýsingu, passaðu að skuggi falli ekki á strimilinn og taktu myndina í bestu gæðum sem myndavélin þín býður upp á. Því skýrari sem myndin er, því betra er fyrir okkur að greina gögnin á henni.

  Ef strimillinn er mjög langur þá er best að ná honum öllum með því færa myndavélina fjær frekar en að taka fleiri en eina mynd. Í flestum tilfellum er þetta í lagi þar sem myndavélar á símum t.d. eru orðnar mjög góðar.

 • Get ég sent ykkur strimlana sjálfa í stað þess að taka myndir?

  Helst ekki. Það er mikið að gera við þróun kerfisins og við eigum lítinn tíma aflögu til að ljósmynda strimla. Við getum í öllu falli ekki ábyrgst skjóta afgreiðslu á pappír. Við erum reiðubúin til að gera undantekningar frá þessari reglu, sérstaklega sé um að ræða áhugaverð gögn, s.s. gamla strimla sem fyllt geta upp í verðlagssögu þjóðarinnar.

 • Þurfið þið að fá allan strimilinn?

  Já, við þurfum að fá allan vörulistahluta strimilsins í einni mynd.

 • Á ég að senda ykkur strimla frá verslun X?

  Já takk. Aftur, í fyrstu vinnum við aðeins úr strimlum frá íslenskum dagvöruverslunum en hvetjum fólk þó eindregið til að senda inn alla sína strimla þar sem líklegt er að við munum í framtíðinni geta unnið með fleiri verslanir og vörutegundir.

 • Á ég að senda inn erlenda strimla?

  Já, takk. Við myndgreinum þá að vísu ekki, enn sem komið er, en þeir munu koma að gagni við þróun kerfisins því til lengri tíma litið viljum við að í kerfinu verði hægt að gera verðsamanburð við erlendar verslanir.

Kerfið

 • Hvar get ég skoðað gögnin mín?

  Á vefnum sem opnaður verður innan skamms. Við sendum póst til allra þeirra sem senda okkur strimla og látum vita þegar við opnum.

 • Takið þið við öðrum gögnum en innkaupastrimlum?

  Já. Við leyfum innsendingu á öllum tegundum kvittana og reikninga sem sýna staðfest verðlag á hverju sem er en myndgreinum enn sem komið er einvörðungu strimla frá íslenskum dagvöruverslunum.

Greining á strimlum

 • Hvað lesið þið af strimlinum?

  Hvað var keypt á hvaða verði, hvar og hvenær. Þetta er allt sem við þurfum.

 • Hvaða strimla greinið þið?

  Við greinum strimla frá flestum íslenskum dagvöruverslunum. Í upphafi leggjum við áherslu á stærstu verslanakeðjurnar þar sem það hjálpar okkur að ná sem mestu magni gagna hratt en markmiðið er að greina strimla allra íslenskra dagvöruverslana.

 • Hvernig vinnið þið úr gögnunum á strimlinum?

  Við keyrum myndgreini á strimlana sem les textann af þeim. Textinn er sendur inn í kerfi sem eimar verðlagsupplýsingar af seðlinum, skráir þær og parar við eldri gögn, s.s. skráðar vörur og svipaðar skráningar. Mannshöndin mun í fyrstu koma víða við sögu til að staðfesta og/eða leiðrétta niðurstöður myndgreinisins en þeim tilfellum fer fækkandi eftir því sem vélin fær betri þjálfun.

 • Er hægt að blekkja kerfið með því að senda inn falska strimla?

  Kerfið les að miklu leyti sjálfvirkt úr gögnum sem því berast svo vissulega er hægt að skrá röng gögn. Það sem skiptir mestu máli til að berjast gegn slíku er að sem flestir taki þátt og sendi inn sem mest af gögnum. Því meiri gögn sem við höfum, því auðveldara er fyrir okkur að finna frávik og þar af leiðandi hugsanlegar falsanir. Við eigum ekki von á að þetta verði vandamál en við erum á verði gagnvart þessu.

Persónuvernd

 • Miðlið þið persónutengdum gögnum til þriðja aðila?

  Nei. Áhersla Strimilsins er á vörur, verslanir, vöruverð og verðlagsþróun, ekki einstaklinga.

 • Hver hefur aðgang að mínum gögnum?

  Allir hafa aðgang að verðupplýsingum af þínum strimlum en gögnin eru ekki persónugreinanleg. Strimillinn mun hvorki selja né miðla persónugreinanlegum gögnum.

 • Eru upplýsingar á innkaupastrimlum persónugreinanlegar?

  Innkaupastrimlar skiptast oftast í tvennt, annarsvegar reikning með vörulista (það er sá hluti strimilsins sem við höfum áhuga á) hinsvegar greiðslukvittunina. Stundum er þetta tvennt saman á einu blaði, stundum á sitthvoru blaðinu.

  Á greiðslukvittuninni má stundum finna persónugreinanleg gögn, s.s. heimildarnúmer (sem tengt er greiðslukorti) eða hluta úr kortnúmeri. Því hvetjum við fólk til að senda okkur ekki þann hluta strimilsins, enda ekki markmið kerfisins að vinna úr gögnunum sem þar er að finna.

Ýmislegt

 • Eruð þið með app?

  Já. Við erum bæði með app fyrir iPhone og fyrir Android.

 • Get ég hjálpað til með öðrum hætti en að senda inn gögn?

  Já. Notendur geta í kerfinu aðstoðað við innslátt gagna. Notendur geta slegið inn gögn af eigin strimlum, en öll innslegin gögn flýta fyrir þróun og villuprófun á vélarlesaranum okkar. Einnig munum við eflaust leita til notenda um t.d. aðstoð við flokkun og greiningu erfiðra gagna sem falla illa að myndgreiningu. Virk vörunúmer í dagvöruverslunum hér á landi telja tugi þúsunda svo það er mikið verk framundan. Ef þig langar að hjálpa, hafðu samband.

 • Er kerfið aðeins á Íslensku?

  Já, fyrst um sinn er kerfið aðeins á Íslensku.